Við kynnum Bjórland til leiks!

eftir Þórgnýr Thoroddsen 18. febrúar, 2020 2 mín. lestur

 Eins og allar góðar sögur þá hófst saga Bjórlands á hittingi hvar á boðstólum var gamall bjór og ostar sem voru komnir 1-5 ár yfir síðasta söludag. Eins og gerist þegar bruggarar koma saman var rætt um bjór og aðrar veigar, hversu gaman það er að brugga og hversu afskaplega erfitt það er fyrir lítil brugghús að selja ölið inn á veitingastaði. Ýmsar kenningar bar á góma, en ein sú helsta var að það er erfitt fyrir veitingastaði að halda sambandi við lítil brugghús gangandi, hvað þá fimm. Yfirsýnin er vandinn.

 

Eðlilega fæddist hugmynd: Það væri magnað ef það væri til bara svona… heildsala sem að selur allan handverksbjór á einum stað, t.d. í gegnum vefsíðu!

 

Skrunum áfram um það bil eitt ár og Bjórlandi er hleypt af stokkunum, en síðasta hálfa árið hefur farið nær óskipt í undirbúning á þessari veislu sem er að hefjast. En hvað nákvæmlega er Bjórland?

 

Markmið Bjórlands er að vera eini staðurinn sem þörf er á til að mæta handverksbjórsþörfum veitingastaða á Íslandi. Á bak við okkur eru langsamlega flest handverksbrugghús landsins og fleiri bætast í hópinn á komandi misserum. Á vefsíðunni má finna flest handverksöl sem þú þekkir, og allt hitt líka sem þú hefur aldrei heyrt um. - Hefur þú heyrt um Húsavík Öl, Draug, Báruna, Móa eða Og Natura?

 

Hægt er að panta einskonar bland í poka frá brugghúsunum. Kippu frá þessum, kassa frá hinum og tvo kúta frá þeim þriðju. Við sjáum svo um að taka þetta saman og skutlum þessu á sinn stað.

 

Gæti ekki verið einfaldara!

 

Ef að þið hafið tillögur eða ábendingar, ekki hika við að láta okkur vita í bjorland@bjorland.is eða í síma 7700502 (Þórgnýr).Einnig í News

Vefsala á áfengi til einstaklinga

eftir Þórgnýr Thoroddsen 27. mars, 2020 1 mín. lestur